Leiðbeiningar: Úti-og inniarinn

Inniarinn

Það krefst fullrar athygli að kveikja upp í inniörnum og því skal vanda sérstaklega vel til verka. Því er nauðsynlegt að lesa meðfylgjandi leiðbeiningar vel og vandlega áður en kveikt er upp. Ef farið er nákvæmlega eftir þessum leiðbeiningum þá mun eldurinn loga rétt og skapa notalega stemningu. Það er sannarlega fátt notalegra en að hreiðra um sig í sófanum með vinum og vandamönnum og eiga notalega kvöldstund þar sem hitinn, lyktin og snarkið frá arineldinum skapar rómantíska stemningu.

Athugið að leiðbeiningarskjal þetta er hluti af leiguskilmálum sumarhússins sem finna má á www.rosakotid.is og leigutaki hefur fengið sent með tölvupósti.
Það virðist ofur einfalt að henda nokkrum arinkubbum í arininn og kveikja síðan í en svo er ekki.
Það er alls ekki sama hvernig kveikt er upp í arineldstæðum og því þarf að hafa eftirfarandi atriði í huga og undirbúa uppkveikju í réttri röð:

  • Mikilvæg er að muna áður en kveikt er upp að þetta arineldstæði er alls ekki hannað til að hita upp rýmið heldur er eldurinn einungis til skrauts og til að skapa notalega stemmingu. Þar af leiðandi skal gæta þess að hrúga ekki of miklu magni af arineldivið í eldhólfið þannig að úr verði alltof stór og mögulega illviðráðanlegur eldur.
  • Loftstreymi/súrefni fyrir eldinn: Að skapa rétt loftstreymi er afar mikilvægt fyrir eldinn svo hann brenni rétt og fylli stofuna ekki af reyk með tilheyrandi óþægindum og því er mikilvægt að fylgja eftirfarandi atriðum:
  • Loftlúgur/Loftstreymi (1): Byrja skal á því að opna fyrir lúgu inn í arni sem opnar leið fyrir reykinn upp reykrörið, ef kíkt er upp reykrörið sést handfang sem skal opna fyrir.
  • Loftlúgur/loftstreymi (2): Einnig skal opna tvær litlar loftlúgur sem eru sjáanlegar beggja vegna neðst og innarlega í eldhólfinu. Þær hleypa lofti inn í arininn og hjálpa til við að gefa eldinum súrefni.
  • Loftlúgur/loftstreymi (3): Samhliða þessari aðgerð þarf að huga vel að því að ekkert hindri loftstreymi utan frá (hvít lítil lúga staðsett neðst á útiarni).
  • Loftstreymi – Meira loft (4): Opnið einnig einn glugga í stofunni a.m.k. til að byrja með.
  • Loftstreymi – Fróðleikur – Meira loft = Meiri hiti = styttri brennslutími. Minna loft = Minni hiti og lengri brennslutími.
  • Kalt loft: Áður en kveikt er upp skal kanna hvort kalt loft streymi niður reykrörið. Hægt er að finna það með því að setja höndina inn í arinopið og undir reykrörið.
  • Kalt loft/hitauppstreymi: Kalt loft getur unnið á móti hitauppstreyminu fyrst í uppkveikjunni og myndað öfugan trekk niður reykrörið þannig að reykur berst inn í rýmið með tilheyrandi vandamálum. Það er því afar mikilvægt að lesa áfram allar upplýsingar vel og vandlega til að fyrirbyggja að það gerist.
  • Eldiviður: Aðeins er heimilt að nota sérframleiddan arineldivið.
  • Óheimilt er með öllu að taka trjávið úti í skógi eða annan við og kveikja upp með honum enda getur slíkt skapað mikla eldhættu.
  • Við hefðbundna uppkveikju er best að nota gömul dagblöð og rúlla þeim þétt saman í vöndla. Gott er að nota ca 3-4 blöð saman og ca 4-5 vöndla á milli arinkubba og undir þá. Einnig eru til sérstakir uppkveikjukubbar í sumum verslunum og þá skal nota 2-3 kubba og staðsetja undir eldiviðnum. Óheimilt er með öllu að nota eldfiman vökva að neinu tagi við uppkveikju þar sem það getur skapað mikla eldhættu.
  • Magn eldiviðar fyrir uppkveikju: Mikilvægt er að hafa magn eldiviðar í lágmarki til að byrja með og nota aðeins 3-5 meðalstóra kubba (ekki stóra) og svo er bætt á eldinn eftir því sem hentar.
  • Röðun eldiviðar: Til að koma í veg fyrir eldhættu, þá er mikilvægt er að raða eldiviðnum vandlega ofan á kubbagrindina og í kross þannig að gott bil sé á milli þeirra og að tryggja að þeir falla ekki úr arinstæðinu eftir að kveikt hefur verið upp.

Einnig gott að vita!

Þegar kveikt hefur verið upp og eldurinn er farinn að loga vel og myndast notaleg stemning þá mun eldurinn mynda loftstreymi frá þeim glugga sem opinn er og ef kalt er úti að þá getur kólnað í stofunni þrátt fyrir hita frá arni. Eldurinn sækir sér súrefni til að loga og ræður súrefnismagnið því hve vel hann logar og hve mikið. Ef nægt súrefni næst í gegnum loftlúgur þá er best að loka glugga og láta eldinn sækja súrefni innan frá. Það ætti að vera hægt þegar eldurinn hefur tekið vel við sér og myndað góða hitaglóð og heitt uppstreymi. En stundum dugar það ekki til og þá sérstaklega þegar kalt er í veðri og vindur vinnur jafnvel á móti hitaloftstreymi upp reykrörið og þá þarf að hafa einn glugga örlítið opinn.

Venjulega ætti allt að ganga að óskum við uppkveikjuna en ef það er greinilegt niðurstreymi kalds lofts úr reykröri þá þarf að huga sérstaklega að uppkveikjunni. Allir vita að kalt loft leitar niður á við og heitt loft upp en ef heita loftið er ekki nægilega öflugt í fyrstu uppkveikjunni mun reykurinn úr arninum leita inn og valda óþægindum. Ef sú er raunin eru nokkur ráð til við þessu sem eru eftirfarandi:

  • Ef reyk leggur inn að þá er gott að reyna að snúa reyknum við/trekknum með því að hafa tvo til þrjá auka vöndla af dagblöðum og leggja ofan á viðinn. Hitinn sem þá myndast frá þeim nægir oftast til að snúa trekknum. Kveikið svo í blöðunum milli kubbanna, nú ætti eldurinn að taka vel við sér svo framarlega að það sé verið að brenna þurran við, sem er í raun forsenda fyrir því að heimilt sé að kveikja upp í þessum arni.
  • Kynntu vel upp í byrjun til að fá góðan hita bæði í eldstæðið og upp reykrörið þá myndast góður trekkur. Bætið síðan eldivið eftir þörfum, ekki of mikið í einu þannig að eldurinn koðni ekki niður.
  • Munið að setja neystalúgu fyrir um leið og búið er að kveikja upp, hún er svo aðeins fjarlægð rétt á meðan arinkubbum er bætt á eldinn.
  • Eftir að eldurinn hefur lifnað vel við skal opna glugga örlítið fyrst í byrjun til að auka trekkinn. Ef eldurinn er mikill í arinstæðinu þá getur hann búið til dálítinn súg í gegnum stofuna og kælt rýmið upp. Í flestum tilfellum ættu loftlúgur til hliðar í arinhólfinu að duga.

Munum að brenna bara þurrum við sem sérstaklega er seldur sem slíkur. Aldrei má brenna blautum við.


Af hverju má einungis nota þurran sérframleiddan við?

Allt að helmingur þyngdar á nýfelldu tré er vatn og það fer óhemju mikil orka í að kveikja upp í þannig við. Notaðu aðeins þurrkaðan við sem hefur verið þurrkaður að lágmarki í 6-12 mánuði og þá ætti rakinn að vera innan við 20%. Ef þú brennir óþurrkuðum við fer mikil orka í að losa rakann úr honum sem nýtist ekki til upphitunar. Blautur viður getur skapað sprengingar og auk þess eykur hann á sótmyndun í reykröri sem dregur úr virkni hans svo ekki sé talað um óþarfa mengun. Sjáir þú reyk stíga upp af skorsteini ber það vott um að þú sért að brenna of blautum við. Reykurinn sem kemur upp á að vera nánast ósjáanlegur.

 

Eldvarnir

  • Eldvarnarteppi: Fyrsta ráð ef slökkva þarf snögglega. Staðsett í eldhúsi upp á vegg.
  • Vatn: Það getur verið gott að hafa vatn í könnu við höndina þegar kveikt er upp ef eldur verður óviðráðanlegur en varast skal að skvetta miklu magni inn í eldinn því þá getur glóð skolast út og á parket og jafnvel valdið enn stærra vandamáli. Ef rétt er að öllu staðið og leiðbeiningum fyllt þá ætti ekki að koma upp vandamál.
  • Vatnsúðakanna: Gott er að hafa vatn í vatnsúðakönnu til að nota til að slökkva glóð áður en gengið er til náða. Notast eingöngu á litla glóð sem er við það að slökkna. Notist eingöngu í litlu magni. Vatnsúðakanna er geymd í vaskaskáp.
  • Slökkvitæki: Stutt er í léttvatns slökkvitæki sem skal hiklaust nota ef upp kemur vandamál. Það eru tvö slökkvitæki í húsinu, hitt er staðsett við inngöngu í gestahús. Kynnið ykkur hvar slökkvitækin eru í húsinu. Látið eigendur vita ef slökkvitæki eru notuð. Aldrei má skilja eftir notuð slökkvitæki fyrir næstu leigjendur.
  • Flóttaleiðir: Kynnið vandlega fyrir öllum gestum flóttaleiðir hvernig skal opna krækju á gluggum í herbergjum sem eru flóttaleiðir út. Það er útskýrt nánar í húsreglum hvernig krækjan opnast.
  • Rýmingaræfing: Takið stutta rýmingaræfingu með ykkar fólki og sýnið öllum hvernig skal opna krækju á glugga til að komast út og hvar skal safnast saman.
  • Vandamál: Það er afar áríðandi að láta vita af öllum vandamálum þannig að næsti leigjandi komi ekki að vandamálinu. Skiljið við húsið eins og þið viljið taka við því.
  • Farið aldrei frá opnum eldi: Það er lykilregla að það sé alltaf einhver til staðar til að fylgjast með arineldi sem og öðrum opnum eldi. Mikilvægt er að taka einn hring um húsið og gæta þess að slökkt er á öllum kertum, lömpum og öðru sem gæti skapað eldhættu.

Útiarinn.

Sömu grunnreglur gilda um uppkveikju í útiarni og inniarni – hann þarf einnig þurran við.

Passlegt magn eldiviðar fyrir hverja uppkveikju er u.þ.b. 3-5 kubbar (fer eftir stærð kubba) og svo er bætt á eldinn eftir því sem við á. Ekki er gott að nota of marga arinkubba í upphafi, best er að bæta við kubbum þegar sést að eldurinn er vel viðráðanlegur. Mikill vindur getur haft alvarlegar afleiðingar og feykt eldi og glóð út úr arninum. Það er því alls ekki ráðlegt að kveikja upp í sunnanátt því vindurinn á þá greiða leið inn í eldstæðið sem getur skapað mikla eldhættu, bæði fyrir hús og gróður í kring.

  • Gæta skal að því að nota ekki of marga arinkubba.
  • Of mikill eldur getur náð upp í þakskyggni og valdið alvarlegum afleiðingum.
  • Aldrei skal kveikja upp ef hætta er á að vindur geti feykt glóð.
  • Aldrei má nota annað en viðurkenndan eldivið.
  • Yfirgefið aldrei eldstæði fyrr en allar glæður hafa slokknað. Gangið sérstaklega úr skugga um að öll glóð hafi slokknað.
  • Ath. ef glóð hefur ekki slokknað þegar gengið er til náða skal úða vatni úr blómaúðabrúsa (geymdur í vaskaskáp).
  • Slökkvitæki eru tvö og eru staðsett við hliðina á ísskáp í stóra húsinu og í forstofu gestahúss.
Translate »